dcsimg

Sandlægja ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Sandlægja (einnig nefndur gráhvalur eða klakkur) (fræðiheiti: Eschrichtius robustus) er stór skíðishvalur og er eina tegundin í sinni ættkvísl. Fannst áður á öllu norðurhveli jarðar, en er nú útdauður í Norður-Atlantshafi.

Lýsing

Sandlægja er gildvaxinn og hausinn fremur stuttur og mjór. Séður að ofan er hann þríhyrningslaga og neðan á höfði eru 2 til 5 húðfellingar. Kjafturinn er niðursveigður rétt framan við augun. Hvalurinn er dökkflikróttur eða ljósgrár á litinn og oft vaxinn hrúðurkörlum. Hvalurinn hefur ekkert eiginlegt horn en 6 til 12 lága hnúða á afturhluta baksins. Bægslin eru breið og fremur stutt og sporðurinn breiður. Blástursholan er hjartalaga séð að aftan og blástur fremur lágur (3 til 4,5 metrar). Í hvorum skolthelmingi eru 130 til 180 skíði.

Kynin eru svipuð að stærð, um 15 metrar á lengd og allt að 45 tonn á þyngd.

Útbreiðsla og hegðun

Sandlægju er nú einungis að finna í Kyrrahafi og eru einungis til tveir stofnar af honum , annar undan ströndum Kaliforníu en hinn undan ströndum Kóreu. Strandlægjan er sá stórhvalur sem heldur sig mest að ströndum á grunnsævi ólíkt flestum hinna skíðishvalanna og ferðast í allt að 8 þúsund kílómetra og er það lengsta sem þekkist meðal spendýra. [2].

Sandlægjan er einstök meðal skíðishvala vegna þess að hann lifir mest á botndýrum. Hann syndir þá eftir botninum, rótar honum upp með neðri kjálkanum og síar þá úr marflær, burstaorma, kuðunga, samlokur og sæbjúgu. Auk þess síli og síldartegundir í minna mæli. Sandlægjan étur nánast eingöngu á um fimm mánaða tímabili frá maí fram í október. Hann étur um 170 tonn þá 130-140 daga sem hann aflar sér fæðu en það er um 1089 kg á dag að meðaltali.[3]

Sandlægjan er einræn að sumarlagi, sjást þá helst einstaklingar eða smá hópar, 3 til 5 dýr. En þeir safnast saman í stóra hópa í seinni hluta nóvember og sérlega í desember og er þá fengitími í hámarki. Meðgöngutími er um 11 til 13 mánuðir og virðast kýrnar eignast afkvæmi annað hvert ár.

Veiðar og fjöldi

Frá 1846, þegar amerískir og evrópskir hvalveiðimenn uppgötvuðu æxlunarstöðvar sandlægjunnar í Kyrrahafi, og fram að aldamótum 1900 fóru fram gífurlega miklar veiðar á þessum hvölum og var þeim því sem næst útrýmt. Tegundin var þó ekki friðuð fyrr en 1946 en hefur fjölgað mikið síðan og er stofninn nú talinn vera um 27,000 dýr.[4]

Sandlægja var á öldum áður algeng í Norður-Atlantshafi og var útbreidd við bæði strendur Evrópu og Ameríku auk þess sem hún fannst við Ísland.[5][6] Ekki er vitað hvers vegna tegundin dó út í Atlantshafi á seinni hluta 17. aldar en sennilega hafa veiðar átt hlut í því.

Neðanmálsgreinar

  1. Hammond o.fl. 2008
  2. Johns & Swarts, 2002
  3. Nerini, 1984
  4. Johns & Swartz, 2002
  5. Jón Guðmundsson, 1966
  6. Fraser, 1970

Heimildir

  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Hammond, P.S., G. Bearzi, A. Bjørge, K. Forney, L. Karczmarski, T. Kasuya, W.F. Perrin, M.D. Scott, J.Y. Wang, R.S. Wells og B. Wilson, „Delphinus delphis“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Jones, M.L. og S.L Swartz, „Gray Wahle - Eschrichtus robustus“ hjá W.F. Perrin, B. Würsig og J.G.M. Thewissen (ritstj.), Encyclopedia of Marine Mammals (London: Academic Press, 2002).
  • Nerini, M., „A review of gray whale feeding ecology“ hjá M.L. Jones, S.L. Swartz og S. Leatherwood (ritstj.), The Gray Whale (Academic Press, 1984).
  • Jón Guðmundsson lærði, Ein stutt underrietting um Íslands adskilianlegar náttúrur. Halldór Hermannsson bjó til prenturnar. (New York: Cornell University Library, 1966).
  • Fraser, F.C. „An Early 17th Century Record of the Californina Grey Whale in Icelandic Waters“, Investigations on Cetacea II (1970).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • W. Perrin, B. Wursig og J. Thewissen (ritstj.), Encyclopedia of Marine Mammals (Academic Press, 2002). ISBN 0-12-551340-2.
  • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002). ISBN 0-375-41141-0.
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS

Sandlægja: Brief Summary ( Icelandic )

provided by wikipedia IS

Sandlægja (einnig nefndur gráhvalur eða klakkur) (fræðiheiti: Eschrichtius robustus) er stór skíðishvalur og er eina tegundin í sinni ættkvísl. Fannst áður á öllu norðurhveli jarðar, en er nú útdauður í Norður-Atlantshafi.

license
cc-by-sa-3.0
copyright
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visit source
partner site
wikipedia IS